Undanfarin ár hefur ljósmyndaferðamönnum fjölgað gríðarlega á Íslandi. Þekktir ljósmyndarar og youtube stjörnur í ljómyndageiranum halda workshop hér allt árið um kring og á allra þekktustu áningastöðunum getur hreinlega verið snúið að koma sér fyrir með þrífót og fá „hreint“ skot, þar sem enginn er í mynd.

Það er reynsla mín að flestir þessara gesta sem hingað koma eru sallarólegir yfir þessu. Einn og einn Íslendingur kvartar yfir því að hafa ekki náð myndinni sem hann ætlaði sér en flestir eru nokkuð glaðir.
Það taka allir sömu myndina!
Eitt helsta umkvörtunarefni þeirra sem láta fjöldann pirra sig er að það sé búið að mynda þessa helstu staði í drep. Það er ekki til neins að eyða tíma og fyrirhöfn í það að gera sér ferð að Kirkjufelli því það sé löngu búið að taka „myndina“ af því.
Það er mín skoðun að ljósmyndun snúist um fleira en myndina sem við tökum. Þegar við komum að Kirkjufelli er líklegt þar verði erfitt að finna bílastæði. Þegar við hins vegar stöndum innan um ljósmyndara héðan og þaðan úr heiminum skapast tækifæri til að finna það sameiginlega í okkur.
Það er í raun alfallegt að staður eins og Ísland skuli draga hingað allt þetta fólk sem vill gleyma sér í landslaginu okkar og taka það með sér heim. Mér finnst að við ættum að fagna klisjunum.
Gerðu þína eigin útgáfu
Fyrir okkur sem komum aftur og aftur á þessa staði, t.d. þegar við erum að fylgja erlendum ljósmyndurum, felst áskorunin í því að reyna að hvetja fólk til þess að gera eitthvað aðeins öðruvísi. Horfa ekki alltaf á það augljósa, sem allir eru að mynda heldur reyna að gera sína eigin útgáfu.
Gullfoss
Fjölmennari ferðamannastaður er vandfundinn á Íslandi en með því að koma þegar sól er tekin að lækka, horfa í birtuna, má alltaf finna sjónarhorn sem gleður augað.
Skaftafell
Það er ekki endilega nauðsynlegt að hendast upp að Svartafossi. Fjallendið í kringum Skaftafell er einstakt og með því að horfa í birtuna má stundum finna einstök mótíf
Strokkur
Ég þreytist ekki á að segja það: Horfðu í birtuna, prófaðu að nota fólkið sem treður sér í rammann á skapandi hátt til að sýna stærðarhlutföll eða skemmtileg augnablik.
Jökulsárlón
Þrengdu sjónarhornið, leitaðu að jakanum sem hefur eitthvað sem enginn annar hefur. Mundu að þeir eru einstakir og verða líklega breyttir eða jafnvel horfnir næst þegar þú kemur.
Hvað sem þú gerir, ekki gera lítið úr klisjunum okkar. Ekki forðast þær bara af því að svo margir aðrir hafa myndað þessa staði. Þegar þú heimsækir stað með myndavélina þína og opinn huga gerist eiginlega alltaf eitthvað töfrandi.