Öxarárfoss í sólsetri

Landslagsmyndir snúast um birtu

Að mynda landslag snýst um birtuna sem við fáum og hvernig okkur tekst svo að nýta hana. Þótt við værum stödd á fallegasta stað veraldar yrði alltaf erfitt að gera honum skil ef ljósið er ekki fallegt. Þessi mynd af Öxarárfossi er dæmi um það.

Þegar allt virðist ónýtt…

Ég var í einkaferð með ljósmyndara frá Bandaríkjunum í byrjun desember fyrir nokkrum árum. Einn af þessum kúnnum sem er búinn að lesa sig til um það á netinu að maður hreinlega verði að fara Gullna hringinn ef maður fer til Íslands. Ég reyndi að segja honum í mörgum tölvupóstum að það væri klisja og vildi frekar stefna á  leynistaðina mína á Reykjanesi.

En hann var ákveðinn og því varð úr að ég sótti hann á Keflavíkurflugvöll kl. 6.40 og svo steinsvaf hann  alla leiðina að Geysi. Planið var að ná gosi í Strokk við sólarupprás um kl. 10.00.

Strokkur stóð við sitt og gaus, en þykkir skýjabakkar komu í veg fyrir að sólarupprásin yrði dramatísk og myndirnar urðu gráar klessur. Við Gullfoss byrjaði að rigna. Það var pínu snúið að peppa þennan nýja vin minn. Á milli þess sem hann geispaði lýsti hann því yfir að hann hataði rigningu. Ég spilaði fyrir hann íslenska tónlist en þá sofnaði hann.

…gerast töfrarnir.

Þannig gekk dagurinn alveg þar til að við komum á Þingvelli, seinnipart dags. Það hafði rofað aðeins til og sólin var lágt á lofti.  Þegar við komum á pallinn við Öxarárfoss fórum við yfir það hvernig við notum  filtera til þess að lengja lýsingartímann og fá silkimjúka áferð á vatnið. Á meðan ég var að kenna honum þetta sá ég hvernig himininn við enda Almannagjár var byrjaður að loga.

Loksins, eftir langan og gráan dag náðum við því sem allir ljósmyndarar eru að leita að þegar þeir fara út að mynda. Að gleyma stund og stað, eltast við myndbyggingu, stilla lýsingartímann og grípa þetta fallega augnablik. Skila því inn í eilífðina.

Þetta er þess virði

Þegar við komum aftur til Reykjavíkur vorum við orðnir vinir, ég og þessi bandaríski ljósmyndari. Allur gráminn og syfjan var á bak og burt og við ræddum lystisemdir ljósmyndunarinnar á bílastæðinu eftir að við vorum komnir á hótelið hans. Í dag erum við vinir á Facebook, spjöllum stundum saman og deilum ljósmyndaævintýrum.

Þess vegna er þessi mynd af Öxarárfossi uppáhaldsmyndin mín frá Þingvöllum.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s