Dagsferð um Reykjanes

Kleifarvatn, Seltún, Selatangar, Brimketill, Gunnuhver, Reykjanesviti og fleiri perlur eru frábærir áfangastaðir fyrir þá sem hafa gaman af landslagsljósmyndun. Sunnudaginn 24. janúar fóru nokkrir félagar í Fókus, félagi áhugaljósmyndara, í sóttvarða ferð um Reykjanesið. Fyrsta stopp var við klett sem stundum er kallaður Indjáninn og stendur rétt utan við ströndina.

Indjáninni í Kleifarvatni stendur af sé flest veður, frost og rok.

Þessu næst kíktum við á nýlega endurgerða Krísuvíkurkirkju. Þaðan fórum við niður að Krísuvíkurbjargi, sem er alltaf tilkomumikið.

Það var magnað að sjá sprungurnar á bjargbrúninni sem mynduðust í skjálftunum í haust.

Frá bjarginu ókum við sem leið lá út að Reykjanesvita.

Það er alltaf svolítil áskorun að finna sjónarhorn sem koma á óvart í jafn mikið mynduðu mótífi og Reykjanesvita.
Reykjanesviti blasir við undir gufunni frá Gunnuhver.

Eftir það stopp skildi leiðir og ég tók eitt aukastopp við Selatanga, þar sem brimið tókst á við Katlahraunið. Þó svo að klukkan væri bara rétt að slá 16.00 var sólin við það að setjast og úr varð þessi sóletursmynd.

Þetta var skemmtilegur dagur, fjölbreytt landslags, góð birtuskilyrði og gaman að sjá aðeins framan í félagana í Fókus, þó svo að við héldum alltaf 2 metra fjarlægð, ferðuðumst í eigin bílum o.s.frv.