Í dag fór fram í annað sinn svokölluð Canon hátíð í Hörpu á vegum Origo. Sem Canon notandi til langs tíma skráði ég mig til leiks. Dagskrá hátíðarinnar var sambland af vörusýningu, fyrirlestrum og spjalli við þá sem maður kannast við úr ljósmyndaheiminum. Þarna voru samankomin u.þ.b. 250 manns og kátt í Hörpunni.
Canon EOS R
Meginviðfangsefni sýningarinnar var nýja speglalausa myndavélin frá Canon, EOS R. Í kynningu fór vörustjóri Canon í Evrópu yfir helstu tækninýjungar í vélinni og sagði frá því hvert Canon stefnir með þessa vél. Hún hefur ýmsa kosti og aðaláherslan hjá Canon virðist liggja í auknum vinnsluhraða og gríðarlega öflugu fókuskerfi.
Við innganginn á sýningasvæðinu hafði Origo komið fyrir prófunarbás og bak við básinn sá sirkusfólk um að það væri áhugavert myndefni til þess að prófa. Það var virkilega gaman að fá að handleika vélina, þó ekki væri nema stutta stund. Sirkusfólkið sá til þess að hægt var að prófa fókus, hraða og mismunandi linsur.
Myndin hér að ofan er úr þessari nýju vél og ég verð að segja að myndgæðin lofa svo sannarlega góðu.
Fyrirlestrar
Fjórir ljósmyndarar tóku til máls á hátíðinni: Joel Santos, ferðaljósmyndari frá Portúgal, Rut Sigurðardóttir, freelance ljósmyndari frá Íslandi, Vilhelm Gunnarsson, íþróttafréttaljósmyndari og RAX rak lestina.
Instaplace, U-beygjur og listin að sjá það mannlega
Joel, Rut og Vilhelm fóru öll yfir það hvernig þau nálgast vinnuna sína sem ljósmyndarar. Þau koma úr ólíkum áttum. Joel er ferðljósmyndari, Rut hefur unnið í auglýsingum, tímaritum, dagblöðum og nú síðast í heimildamyndagerð og Vilhelm er einn af reyndari frétta- og íþrótta ljósmyndurum landsins.
Þrátt fyrir að þau komi svona sitt úr hverri áttinni var ákveðinn samhljómur í því sem þau sögðu okkur frá. Þau vildu öll leggja sig fram við að nálgast viðfangsefni sín af virðingu, sýna fólk á sannan og fallegan hátt. Þau vildu gefa sér tíma í að kynnast viðfangsefnum sínum og komast aðeins undir yfirborðið áður en þau taka upp myndavélina. Skipti þá litlu hvort um væri að ræða staði sem fjöldi fólks er búinn að mynda (instaplace) eða fólk sem þarf að mynda fyrir fréttir eða umfjöllun í tímariti.
„Sá sem sér ekki, hefur ekki sál“
Ragnar Axelsson er einn af þeim allra stærstu í íslenska ljósmyndaheiminum. Í fyrirlestrinum sínum fór hann yfir norðurslóðaverkefnið sitt, sagði frá bókinni sinni Jökli, ásamt því að segja frá komandi verkefnum og sýna áður óbirtar myndir.
Það er eitthvað svo ótrúlega nærandi og hressandi að hlusta á mann með þessa gríðarlegu reynslu og sýn tala um ljósmyndun. Hann hefur óbilandi ástríðu í að mynda þær breytingar sem eru að verða á lífríki og mannlífi norðurslóða og tekst einhvern veginn alltaf að hrífa mann með sér í þessari ástríðu þegar hann talar.
Það var virkilega hressandi að fá að taka þátt í þessari hátíð og vindurinn sem blés um mann fyrir utan Hörpuna á heimleið var kannski táknrænn fyrir þá fersku vinda sem blésu um hugann eftir vandaða og áhugaverða fyrirlestra.