Lundinn

Lundabúðir, lundadúkkur, lundaskeiðar og lundabolir. Hægt og rólega hefur lundinn orðið að einkennisdýri fyrir Ísland í hugum margra ferðamanna. Í hugum Íslendinga hefur hann kannski frekar orðið að tákni fyrir ferðaþjónustuna, stundum í hálfgerðum skammartón. En hvað sem því líður þá lundinn sennilega sá villti fugl sem hægt er að komast í hvað mest návígi við og virkilega gaman að mynda hann.

Sjö stitjandi lundar og einn alveg að lenda, með útbreidda vængi.
Lundinn kemur heim og lendir í góðra vina hópi í Ingólfshöfða.

Staður og stund

Þó að hann sé kannski spakur og hægt að komast merkilega nálægt honum er ekki þar sem sagt að það sé aðgengilegt fyrir alla að komast í lundabyggð. Þó eru nokkrir staðir sem hafa verið vinsælli en aðrir:

  • Látrabjarg
  • Hafnarhólmi Borgarfirði eystri
  • Vestmannaeyjar
  • Dyrhólaey
  • Ingólfshöfði
  • Vigur í Ísafjarðardjúpi

Minn uppáhaldsstaður er án nokkurs efa Látrabjarg. Afskekkt, hrikalegt, hættulegt og fallegt. Allt í senn. Birtan þar þegar líða tekur á kvöld eftir miðjan júní verður oft líka mjög heppileg. Það er mikill kontrast á milli hvítrar bringunnar og svartra vængjanna. Ef birtan er of hörð um hábjartan daginn er hætta á að bringan verði yfirlýst eða skuggarnir í vængum og baki lokist alveg. Í kvöldbirtunni getur verið gott að eiga við þetta og blátt hafið í bakgrunni, úr fókus getur verið skemmtilegt.

Mynd af lunda sem kúrir á steini. Blátt haf í bakgrunni.
Það er alltaf hætta á að hvítu hlutar fuglsins verði yfirlýstir eins og á bringunni hér, en hér eru smáatriði í skuggasvæðinu.

Að auki er hægt að ná augnablikum þar sem sólsetrið baklýsir lundann og þá er eins og goggurinn fari að ljóma. Með því að gefa sér góðan tíma, horfa vel á atferli fuglanna verða líka til ógleymanleg augnablik sem gaman er að fanga.

Mynd af tveimur lundum í miðnætursól
Lundapar kyssist í kvöldsólinni við Látrabjarg. Takið eftir hvernig baklýsingin lýsir upp efri hlutann á goggi annars fuglsins.

Tímabilið er ekki mjög langt og skemmtilegast finnst mér að eltast við lundann þegar komnir eru ungar í holurnar þeirra. Þá eru þeir oft spakir og gjarnan hægt að ná þeim með æti í munninum. Þegar líður á sumarið eru þeir meira á ferðinni og eftir miðjan ágúst fer lundinn af varpstöðvunum og kemur ekki meir.