Fyrir rúmum tveimur vikum skrapp ég einn seinnipart í skíðagöngu út frá Litlu-Kaffistofunni á Hellisheiði. Þar sem birtan var ákaflega falleg ákvað ég að kippa myndavélinni með og sjá hvort ég gæti fangað nokkrar fallegar myndir.
Birtan var býsna hörð í upphafi ferðar og sólin skein glatt. Frostið var um -8°, en nánast logn. Eftir því sem leið á og sólin fór að lækka á loft varð birtan sífellt áhugaverðari og ég fann mér stað þar sem ég gat rammað inn fjöll í norðri, austri og suðri. Þannig gat ég leikið mér með myndefnið eftir því sem sólin lækkaði á lofti.
Fyrst reyndi ég við það ég held að heiti Sauðadalahnjúkar. Þar sleikti sólin snævi þaktar hlíðarnar og með því að ljósmæla bjartasta hluta þess var hægt að draga fram áferðina í fjallinu og varð uppáhaldsmyndin mín eftir þessa reisu.
Síðan sneri ég mér í átt að Reykjafellinu og Hellisheiðarvirkjun og reyndi að fanga gufuna sem rís upp frá virkjuninni fyrir framan fellið. Ég hafði gert mér væntingar um að lækkandi sól mynd draga fram meiri teikningu í gufumekkinum, en varð ekki alveg að ósk minni.
Þá rak ég augun í gufustrók sem að stóð einn og stakur og bar við Húsmúla. Mér fannst stefnan á honum mynda skemmtilegan þríhyrning við Múlann. Raflínurnar í gufunni minna okkur líka á að gufan þarna er tilkomin vegna orkuvinnslunnar sem þarna er.
Að lokum beindi ég linsunni að Skeggja í Henglinum og ákvað að reyna að fanga djúpan bláan litinn sem var að koma í himininn.
Þetta var frábært dagur, góð útivist og eftir sitja nokkrar ágætar myndir og ein sem ég er virkilega ánægður með. Það finnst mér gott viðmið fyrir svona ljósmyndatúr. Ef ég kem heim með eina mynd sem ég er ánægður með, þá var það þess virði að leggja þetta á sig.
Hér er stutt myndband sem ég ákvað að setja saman eftir að ég var kominn inn á miðja heiði og tók á símann minn.