Ég er heppinn. Hef ekki veikst og mjög fáir þeirra sem ég þekki hafa veikst, og fólkið í viðkvæmasta hópnum í kringum mig er öruggt og hverfandi líkur á að það veikist.
En, eins og svo ótal margir aðrir ljósmyndarar hef ég lent í því að myndatökur hafi verið afbókaðar, viðburðum sem ég átti að mynda o.s.frv verið frestað á meðan heimsfaraldur gengur yfir. Og, líkt og svo ótal margir aðrir ljósmyndarar, hef ég notað tímann til þess að kíkja aðeins til baka og skoða myndasafnið mitt og leita þar að gersemum sem mér hafa yfirsést.
Þetta hefur verið áhugaverð og skemmtileg leit.
Ég hef í störfum mínum sem leiðsögumaður heimsótt Gullfoss oftar en ég get talið. En í nóvember 2018 fór ég þangað með kanadískar mæðgur, ljósmyndara sem voru að stíga sín fyrstu skref í landslagsljósmyndun. Við komum að fossinum seinnipart dags þegar birtan var að verða áhugaverð. Sólin skein frá hlið, framan á neðri fossinn og dró fram fallega teikningu í vatninu þar sem það brýst fram á milli klettanna. Við löbbuðum upp með gljúfrinu í stað þess að fara niður á klettana við fossbrúnina, skrúfuðum alla filtera sem við höfðum á vélarnar og byrjuðum að skjóta. Með því að einbeita okkur að því að fá bjartasta hlutann, hvítfyssandi fossinn rétt lýstan varð áferðin á myndinni sérstök og mér fannst ég ná að draga fram einkenni í þessu fjölsótta stað sem eru pínu sérstök og að myndin sé ekki „eins og allar hinar myndirnar.“
Þessi mynd hefur valdið mér smá heilabrotum. Þetta hross sem stóð í gerði við Landveg og beið eftir stormi sem var yfirvofandi greip strax augað. Skýjafarið var ótrúlega dramatískt og sólin barðist við að skína í gegnum þunga og svarta skýjabakka sem voru sérlega dramatískir. En ég hef aldrei verið sáttur við þessa mynd og einhvern veginn hefur mér ekki tekist að ná í hana því jafnvægi sem vantar. En með því að gera hana svarthvíta og klippa burtu langstærstan hluta af himininum varð hún einhvern veginn skárri. Ég er samt ennþá svolítið efins um hana.
Fegurðin í hinu smærra hefur lengi heillað mig í landslagsljósmyndun. Að horfa á klett sem skagar út í beljandi jökulvatn og hugsa aðeins um lífið og tilveruna. Allar myndlíkingarnar í tungumálinu okkar: Ekkert stöðvar tímans þunga nið, dropinn sem holar bergið, tíminn er eins og vatnið…
Eða velta einfaldlega fyrir sér svolítið abstrakt myndbyggingu, horfa á línurnar sem fara að taka á sig mynd í rammanum og hvort þær geti kallað fram hughrif. Það finnst mér áskorun og finnst gaman að leika mér að því að ramma myndefni eins og þennan mosavaxna klett í Eldvatni.
Það er mikilvægt í allri landslagsljósmyndun að gefa birtunni jafn mikinn gaum og landslaginu. Fallegustu myndirnar verða ekki endilega alltaf til í stórfenglegasta landslaginu. Hér er horft yfir Skaftafellsheiðina og upp til Kristínartinda. Þeir eru ekki hæstu fjöllin, ekki þau dramatískustu og ekki þakin jökli eins og mörg þeirra glæsilegustu í þjóðgarðinum.
En hér var birtan þannig að það var ekki hægt að keyra fram hjá. Það var snjókoma á leiðinni, og sólin barðist við að skína í gegnum élin. Þunn snjóþekjan yfir fjöllunum gaf þeim áferð sem mér fannst falleg. Ég er ótrúlega ánægður með útkomuna og þetta er ein af mínum uppáhalds landslagsmyndum.