Hverasvæði í nærmynd

Síðastliðinn laugardag greip mig ljósmyndaóþreyja. Ég hef lítið myndað landslag í sumar og langaði að bæta úr því. Eins eins og stundum er, þá var tíminn takmarkaður og það sem verra var, birtan var langt frá þeim landslagsmyndastíl sem ég aðhallast.

En, það var samt engin ástæða til þess að hanga bara heima. Eins og svo oft þegar tími til ferðlaga er af skornum skammti renndi ég út á Reykjanes. Þangað er alltaf gott að koma, landslagið mjög fjölbreytt og einhvern veginn verður maður aldrei uppiskroppa með falleg mótív þar.

Í þetta sinn rölti ég frá hverasvæðinu við Seltún og inn á Ketilstíg sem liggur upp hlíðina. Rétt áður en komið er að Arnarvatni gekk ég inn í dalverpi og fann hverasvæði sem ég ákvað að mynda með langri linsu, nærmyndir af óreglulegu og litríku mini-landslaginu í svæðinu.

Útkoman úr þessu brölti fannst mér skemmtileg og þótt ferðin væri stutt og viðfangsefnið ekki endilega allra stórbrotnasta landslagið á svæðinu fannst mér þetta virkilega skemmtileg meðferð við ljósmyndaóþreyjunni minni 🙂