Haustlitir og háhitasvæði

Þetta hefur verið skrítið ár og því miður hefur það bitnað svolítið á ljósmynduninni hjá mér. Það hefur verið minna að gera í portrettmyndatökum, fermingarmyndatökum og brúðkaupum en undanfarin ár og ég hef ekkert gædað erlenda ljósmyndara á þessu ári.

Þegar svona ládeyða skellur á þarf stundum að sparka í rassinn á sjálfum sér og kveikja viljandi aftur á drifkraftinum. Á mánudaginn ákvað ég að fara í mína eigin ljósmyndaferð.

Ég var mættur á Ölkelduháls fyrir sólarupprás. Vegurinn þangað var ekki góður, en með því að fara hægt og rólega var þetta lítið mál fyrir Súkkuna.

Það eru víða fallegar stikaðar gönguleiðir á þessu svæði sem leiða mann að mjög virkum hverasvæðum. Það er þó mikilvægt að fara varlega og horfa vel niður fyrir sig því ný hveraaugu geta opnast hér og þar.

Svona háhitasvæði eru endalaus uppspretta fyrir abstrakt myndatökur og lítið mál að gleyma sér algerlega í formum, litum og leitinni að hinni fullkomnu myndbyggingu.

Síðan lá leiðin í Þjórsárdalinn. Á upphaflegu áætluninni var að kíkja á Rauðuskál við Heklu en þykk þoka lá yfir svæðinu og ég heimsótti Þjófafoss í staðinn.

Þokan sló miklum ævintýraljóma á svæðið og þegar hún byrjaði að þynnast og sólin að brjótast í gegn var eins og sölnað melgresið tæki að ljóma.

Hægt og rólega slitnaði þokan í sundur og Þjófafoss með Búrfell í bakgrunni fór að birtast.

Eftir því sem leið á dvölina á þessu stórbrotna svæði sá ég að vatnið í ánni varð sífellt brúnleitara og blái liturinn í hylnum fyrir neðan fossinn var byrjaður að breytast. Það var greinilega verið að bæta í rennslið á ánni úr einhverjum þeirra miðlunarlóna sem liggja ofar í dalnum.

Veitið athygli litamuninum á ánni og hylnum.

Aðeins neðar meðfram ánni hefur talsverður gróður náð að skjóta rótum í klettabeltinu og urðinni undir því og birtuskilyrðin drógu fram sterka haustliti.

Leiðin lá næst í Gjána í Þjórsárdal sem skartaði fjölbreyttum litum, fallegri birtu og endalausum mótívum.

Þetta var frábær dagur og góð innspýting í þessu leiðindakófi sem heimsfaraldurinn ætlar að þyrla upp. Góð áminning um að fegurðin er víða og að þrátt fyrir erfiðleika og streð er mikilvægt að gefa sér tíma til að fara um, horfa og njóta þess sem náttúran býður upp á.

Landslagsljósmyndun getur verið hin besta hugleiðsla.