Ég hef ástríðu fyrir góðum portrettmyndum. Undanfarna mánuði hef ég fengið þó nokkra karla til mín í myndatökur og það er eins og úr því sé að verða smá sería.
Það stóð svo sem ekki til upphaflega, en eftir því sem fleiri karlar á besta aldri hafa komið til mín, hef ég fundið hvað það er ótrúlega gaman að gefa sér góðan tíma í að draga fram persónuleika þessara manna.
Þó svo að stúdíóið sé frekar lítið eru margir möguleikar á fjölbreyttri lýsingu, uppstillingum og kalla þannig fram fjölbreytta stemmingu í myndunum.
Hvort sem menn vilja alvörugefinn blæ, svolítið dökkan og hrjúfan eða bjartara yfirbragð þá er auðvelt að leysa það á þessum fimmtán fermetrum.
Það getur líka verið gaman að bregða svolítið á leik með svolítið af leikmunum og ýktum svipbrigðum ef menn vilja það.
Aðalatriðið er að portrettið dragi fram einhverja þætti í persónuleika fólks. Við erum ólík og persónuleiki flestra er margbrotinn og eitt portrett getur aldrei dregið fram öll persónueinkenni okkar.
En vandað portrett dregur fram einhverja sögu sem hver og einn hefur að segja. Og þar liggur kúnstin. Ég hef ekki áhuga á að fólk skjótist inn til mín í örstutta stund, stilli sér upp í fyrirfram ákveðnu ljósasetti og fái einhverja ríkistútgáfu af portretti.
Ég vil draga fram einkenni og reyna að láta myndirnar kalla fram brot úr sögu fólksins. Eitt portrett getur aldrei birt okkur allan persónuleika fólks eða sagt alla ævisögu þess en gott portrett getur fengið okkur til að staldra við og velta fyrir okkur manneskjunni sem við horfum á.
Aðalatriðið er að þeir sem koma í myndatöku fái tíma og tækifæri til að vera þeir sjálfir á meðan myndatakan stendur. Þá verða til myndir sem vonandi sýna okkur aðeins inn flókinn og fjölbreyttan persónuleika viðkomandi.