Grænmetisborgari frá grunni

Fyrir nokkru fékk ég þá skemmtilegu áskorun að skila inn nokkrum uppskriftum í Vikublaðið sem gefið er út á Akureyri.

Ég ákvað að hafa þríréttaða veislumáltíð sem allir á heimilinu gætu notið, hvort sem þeir borða kjöt eða ekki.

Ekki síðra var að mynda herlegheitin, sem ég gerði með einföldu hringljósi, beint fyrir ofan matinn og makró linsu.

Forrétturinn var mjög einfaldur pinni með smá mozarella osti, ólífu og mexíkó ostarúllu. Með því að fá sér melónubita strax á eftir var eins og búið væri að kveikja á öllum bragðlaukunum.

Í aðalrétt var svo svartbaunaborgari, lauslega byggður á ýmsum svartbaunabuffsuppskriftum sem ég hef gert, borinn fram með steiktum sveppum, karamelluðum rauðlauk og geggjaðri avókadósu sem ég sá á gulur, rauður, grænn og salt.

  • 2 dósir svartbaunir
  • 1 laukur
  • 1 gulrót
  • 1 rauð paprika
  • 2 geirar af hvítlauk
  • salt og pipar
  • 1 tengingur af grænmetiskrafit
  • 1 tsk cummin
  • smjör til steikingar
  • haframjöl til þykkingar

Skolið baunirnar og látið standa smá stund í sigti til þess að þurrka aðeins. Setjið þær síðan í skál og stappið. Skerið grænmetið allt smátt og steikið, t.d. í litlum potti. Þegar safinn fer að koma af grænmetinu er gott að bæta við einum teningi af grænmetiskrafti, bæta við cummin kryddinu og salta eftir smekk. Látið malla í ca. 5 mínútur. Því næst er grænmetið maukað með töfrasprota eða sett í matvinnsluvél. Maukinu er síðan blandað saman við baunastöppuna og hrært vel saman. Bætið við haframjöli til þess að þykkja blönduna svo hægt sé að móta borgarana. Látið svo kólna aðeins. Ég móta borgarana með hamborgarapressu, en hægt er að gera það líka með höndunum. Steikið síðan í ca 5-7 mínútur á hlið. Byrjið frekar með aðeins lægri hita og hækkið, frekar en að byrja á of miklum hita. Ef maukið er ennþá heldur blautt má setja brauðrasp á borgarana rétt áður en þeir fara á pönnuna.

Avókadósan er mjög einföld, en ákaflega bragðgóð

  • 2 avókadó
  • 1 dós af sýrðum rjóma
  • Sweet chili sósa eftir smekk

Takið hýðið af avókadóinu, takið steininn úr og stappið. Hrærið sýrða rjómanum saman við og bragbætið svo með sweet chili sósunni.

Í eftirrétt var svo einföld súkkulaðimús með kaffi- og vískibragði. Trikkið þar er bara að finna einfalda uppskrift að súkkulaðimús og setja 1-2 msk af mjög sterku kaffi og 1 tsk af viskí út í súkkulaðiblönduna.