Skundað um skjálftasvæði

Jarðskjálftinn í síðustu viku minnti okkur hérna á höfuðborgarsvæðinu á hvað við búum í mikilli nálægð við öflin í náttúrunni. Reykjanesið er eldbrunnið á alla kanta, endalaus hraun, öflug háhitasvæði og jarðmyndanir af ýmsum stærðum og gerðum.

Keilir hristist duglega í skjálftanum stóra

Í dag ákvað ég að gera mér ferð á svæði í nágrenni upptaka skjálftans, nánar tiltekið við Sog. Þar gekk ég um í tæplega þrjá tíma og naut eindæma náttúrufegurðar.

Horft yfir Sogalæk og landslag sem helst minnir á Landmannalaugar og Kerlingarfjöll.

Stormurinn sem hefur blásið um suðurhluta landsins dró fram dökk og dramatíska skýjabakka sem gerðu landslagið enn mikilfenglegra.

Rétt við gamla borholu á svæðinu er háhitasvæði og miðað við litinn á vatninu má ætla að þar hafi orðið talsverðar breytingar í skjálftanum. Alla jafna er vatnið í svona hverum gráleitt af uppleystu bergi, en í dag var stærsti pollurinn á svæðinu moldarbrúnn.

Það þykir mér benda til þess að hverinn sé að breyta sér og að mögulega sé hann að stækka og helga sér nýtt svæði.

Í nágrenni svona háhitasvæða má oft vænta áhugaverðra litasamsetninga og vatnið getur búið til fallegar abstrakt myndanir.

Reykjanesið er í miklu uppáhaldi hjá mér, hvort sem er til útvistar eða ljósmyndunar. Það er síbreytilegt, fjölbreytt og innan seilingar. Það er varla hægt að biðja um meira.