Hvernig á að mynda norðurljósin

Upplýsingablað um það sem þarf að hafa í huga fyrir norðurljósamyndatöku.
Minnismiði fyrir norðurljósamyndatöku. Smelltu til að sækja myndina og skoða hana í símanum eða prenta út.

Í þessum fyrsta hlaðvarpsþætti  er spjallað um norðurljósin og hvernig við myndum þau. Hér færðu grunnupplýsingar um þau tækniatriði sem þarf að hafa í huga ef þig langar að ná fallegum norðurljósamyndum.

Þú getur hlustað á þáttinn í spilaranum hér að ofan og hér fyrir neðan er svo samantekt á helstu leiðbeiningum sem fram komu í þættinum.

Búnaður

Það er  hægt að ná myndum af norðurljósum á síma, en þar sem ljósin eru mjög dauf er betra að hafa öflugri myndavél ef ætlunin er að ná góðri mynd af þeim. Nauðsynlegur grunnbúnaður samanstendur af:

 • Myndavél sem býður upp á að þú stjórnir ljósopi, hraða og ISO
 • Þrífæti til að halda myndavélinni stöðugri.
 • Vasaljósi svo þú getir farið þinna ferða í myrkrinu og fundið stöðuga undirstöðu undir þrífótinn.

Það er alveg nauðsynlegt að geta stjórnað myndavélinni, því þegar þú kemur út í myrkrið skilur myndavélin ekki aðstæður og getur ekki reiknað sjálf út þann lýsingartíma sem þarf til þess að ná ljósunum almennilega.

Undirbúningur fyrir ferð

Áður en lagt er af stað í ljósmyndaleiðangur er gott að vera viss um að eftirfarandi atriði séu í lagi:

 • Rafhlaða 100% hlaðin. Hún endist skemur í kulda.
 • Minniskort tómt. Ef ljósin eru falleg tekur skamman tíma að fylla kortið.
 • Birtustigið á skjánum í lægstu stillingu. Eftir að augað hefur vanist myrkrinu getur það sem maður sér á mjög björtum skjá á myndavélinni verið mjög blekkjandi.
 • Húfa, vettlingar og hlý föt eru með í för. Það er kalt að standa kyrr við vélina og bíða eftir ljósum.
 • Eitthvað heitt að drekka til að fá sér í bílnum ef kuldaboli fer að bíta fast.

Grunnstillingar

Það er útilokað að gefa upp stillingar á myndavél sem virka alltaf við allar aðstæður. En hér eru stillingar sem hægt er að nota sem byrjunarpunkt og vinna sig svo út frá:

 • Hraði 15 sek (15″)
 • Ljósop eins stórt og hægt er, lægstu töluna sem þú getur fundið.
 • ISO 3200
 • WB á auto
 • Taka í RAW og stilla svo ljóshita og styrk í myndvinnsluforriti eftirá

Þú stillir svo myndavélinni upp á þrífótinn, stillir fókus, beinir henni að ljósunum og prófar að smella af. Ef þú sérð of lítið er næsta skref að lengja tímann eða hækka ISO-ið. Þú þarft að horfa á ljósin og ef þau eru á mikilli hreyfingu er betra að stytta tímann og hækka ISO á móti. Ef þau eru á lítilli hreyfingu er hægt að prófa að lengja tímann og stytta ISO á móti.

Það tekur nokkrar ferðir að ná tökum á þessum grundvallartækniatriðum til þess að fanga ljósin á mynd. Myndirnar með þessari grein voru engin tilviljun, heldur hafði ég farið nokkrar ferðir, prófað mig áfram með þessar stillingar, horft á ljósin og reynt að átta mig á því hvort þau væru á hreyfingu eða kyrr.

Svo þegar allt smellur saman, öflug ljós, góður undirbúningur og aðstæður eins og best verður á kosið, getur maður leikið sér með skuggamyndir í forgrunni og úr verður lífleg og skemmtileg mynd sem segir svolitla sögu.

Fjórar manneskjur standa með hendur á lofti með mjög öflug norðurljós í bakgrunni

Góða skemmtun í næsta norðurljósaljósmyndaleiðangri!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s