Á blautu og köldu haustkvöldi núna í september kíkti ég í heimsókn til Begga Dan, bróður míns og myndaði fyrir hann lagið Fyrirgefðu.
Búnaður
- Canon 6D með 50mm linsu á ljósopi 1.8, og ég handstillti fókusinn
- Canon 60D með 18-105mm linsu á þrífæti.
- Zoom H5 upptökutæki
- Behrninger C1 hljóðnemi fyrir söng.
- Shure SM87A hljóðnemi fyrir gítar.
Ferlið

Í stofunni sem við notuðum til að taka upp myndbandið var ágætis rými. Ég stillti Begga upp úti í horni og notaði nokkuð stóran IKEA lampa til þess að lýsa hann upp. Síðan vorum við með tvo litla kastara á gólfinu til þess að fá smá dramatík í vegginn í bakgrunni og á His Masters Voice grammófóninn.
Á meðan Beggi spilaði lagið gekk 60D vélin á þrífæti en ég gekk um með 6D vélina á stærsta ljósopi og bjó til hreyfingu. Bæði með því að hreyfa vélina og einnig með því að hreyfa til þann grunna fókus sem stóra ljósopið býr til.
Hljóðskrána flutti ég svo yfir í ókeypis upptökuforritið Reaper og setti örlítið reverb og EQ á söng og gítar. Myndbandið klippti ég síðan í 10 ára gamalli útgáfu af iMovie og það reyndist svolítið snúið að fá hljóð og mynd úr tveimur sjónarhornum til að passa saman. Í nýrri hugbúnaði er hægt að gera það sjálfkrafa og ég mæli með því.
Í heildina var þetta ótrúlega skemmtileg tilraun og mér finnst hún sýna okkur fram á að ef efniðviðurinn sem unnið er með, í þessu tilfelli góð tónlist og góður texti þar sem flytjandinn meinar það sem hann segir, er meiri von til þess að útkoman verði ánægjuleg.