Það getur verið spennandi og skemmtileg áskorun á tímum persónuverndar að búa til myndband sem á að lýsa skólabrag og skólaanda en mega ekki sýna nemendur. Ég tók að mér að búa til slíkt myndband fyrir Hagaskóla og ákvað að fara þá leið að mynda að mestu leyti „hluta fyrir heild“ og einbeita mér að starfsfólki skólans í staðinn.
Búnaður
- Canon 6D með 50mm linsu og handstýrðum fókus.
- DJI Phantom 4 dróni
- Zoom H5 hljóðupptökutæki
Til þess að fá gott flæði í hljóðið bað ég skólastjórann um að lesa allan textann eins og hún væri í viðtali, þótt hún væri bara í mynd í stutta stund. Þannig fékkst sama „áferð“ á hljóðið í öllu myndbandinu, sami raddblær og hraði, sem mér finnst mikilvægt.
Það er reynsla mín af gerð svona myndbanda að hljóðvinnslan sé oft helsti þröskuldurinn. Allt of oft sér maður myndband þar sem hljóð er dauft og óskýrt, umhverfishljóð kæfa það sem sagt er eða þá styrkur tónlistar er of mikill.
Ég hef farið þá leið að nota Zoom H5 upptökutæki til þess að fá „hreina“ hljóðskrá. Kosturinn við þetta tæki er að það eru 2 XLR inngangar á tækinu þannig að ég get bætt hljóðnemum við stereo hljóðnemann sem er innbyggður. Þegar sú aðferð er notuð er gott að biðja þann sem er að tala að klappa í upphafi myndbandsins til þess að geta stillt saman myndskrána og hljóðskrána.