Myndir ársins 2020

Ég ákvað að líta aðeins yfir árið 2020 og velja nokkrar af minnistæðustu myndum ársins. Það þarf ekkert að fjölyrða um það hversu furðulegt árið var en í heildina get ég verið mjög sáttur við það hvernig ljósmyndunin mín þróaðist á árinu.

Ég fór í frábæra gönguskíðaferð um Hellisheiði einn sólríkan seinnipart í mars. Snævi þakin fjöllin og sólin lágt á lofti gerðu mér kleift að ná þessari.
Í vor fór ég með félögum í Fókus í skemmtilegt rölt á bökkum Vífilsstaðavatn þar sem mátti fylgjast með flórgoða á hreiðri.
Í matarboði í sumarbústað hjá vini mínum í júní bar það helst til tíðinda að þessi álftarungi virtist vera búinn að koma sér í tóm vandræði. Honum var snarlega bjargað í bjartri vornóttinni.
Í júlí var gengið frá Sveinstindi um Skælinga í Hólaskjól. Mosi vaxnir hólar og hæðir við Sveinstind glöddu augað og mína gömlu Canon S100 sem er gjarnan ferðafélagi minn þegar gengið er í marga daga með allt á bakinu.
Þegar komið er út úr Eldgjá og gengið niður með Ófæru eru víða stórbrotin og falleg mótíf í náttúrinni.
Í lok júlí var heimsóttum við Norðurland og stöldruðum m.a. annars við hjá Goðafossi. Sólin skein bjart á fossinn og ekki hægt að ná fallegum myndum af honum í þeim skilyrðum. En í skugganum lúrði þetta stórbrotna stuðlaberg og greip augað.
Í september var komið að því að klára plötu sem hljómsveitin Tvö dónaleg haust er búin að vera með í smíðum í nokkur ár. Auk þess að spila á gítar á plötunni tók ég covermyndina. Platan heitir Miðaldra og einhvern veginn fannst okkur fátt túlka það tímabil í lífinu betur en að bugast fyrir utan Bónus og reyna að ákveða hvað á að vera í matinn.
Eftir að hafa unnið innilokaður heima í nokkrar vikur í október varð ljósmynda- og ferðaþráin svo sterk að ég ákvað að gera mér ferð um suðurlandið í heilan dag. Við Þjófafoss var þykkri þoku að létta þegar ég kom þar að og birtuskilyrðin frábær. Það var hreinlega eins og melgresið væri sjálflýsandi í svörtum sandinum.
Þjófafoss og Búrfell voru falleg í haustlitunum.
Meira af haustlitum við Búrfell.
Það var einhvern veginn alveg viðeigandi að skoða haustlitina í Gjánni í Þjórsárdal líka og þeir ollu engum vonbrigðum.
Í október tók ég þátt í ljósmyndakeppni á vegum Fókus og sendi inn þessa næturmynd sem ég kalla Haust í heimsfaraldri.
Í október uppfærði ég aðeins búnaðinn í stúdíóinu og fékk krakkana mína til að kíkja sitja aðeins fyrir. Ætli þetta verði ekki ár grímunnar og vel við hæfi að eiga nokkur portrett af fólki með grímur.
En það er líka alveg nauðsynlegt eftir svona ár að minna sig á að einhvern tíman verður lífið aftur eðlilegra og þá verður sko fjör.
Beggi bróðir minn kom líka í heimsókn í stúdíóið til mín og við unnum aðeins með dökka stemmingu og boxþema.
Meira af boxi og Begga.
Þessi er úr útskriftarmyndatöku dóttur minnar sem fór fram núna í desember.

Ég óska öllum þeim sem lesa þetta gæfu og heilbrigðis á nýju ári. 2020 var að mörgu leyti ágætt en ég vona svo sannarlega að 2021 verði að einhverju leyti án samkomutakmarkana og að við getum fellt grímurnar fljótlega á nýju ári.