Enn af eldgosi

Eftir þrjár fyrstu ferðirnar að eldgosinu á Fagradalsfjalli hefur orðið til dágott safn af myndum. Það eru einstök forréttindi að geta myndað eldgos sem er í innan við 2 klst fjarlægð frá heimili manns. Mótívin virðast endalaus, birtuskilyrðin eru aldrei eins og gosið sjálft er síbreytilegt.

Hér er úrval af þeim myndum sem ég hef tekið á þessum ferðum mínum. Það á efalaust meira eftir að bætast við.

Ef einhver þessara mynda gæti átt heima uppi á vegg hjá þér, skaltu ekki hika við að hafa samband og við látum prenta mynd í þeirri stærð sem hentar!

Grótta og Hvaleyrin

Þegar sólin sest þessar fyrstu vikur eftir jafndægur á vori verður oft fallegt og skemmtilegt sjónarspil í fjörunni fljótlega eftir kvöldmat og alger snilld að skjótast út og mynda svolítið áður en maður fer í háttinn. Það er góð hugleiðsla og æfing í núvitund.

Ég skrapp í Gróttu í gærkvöldi með nokkrum félögum úr Fókus – félagi áhugaljósmyndara, og gerði nokkrar tillögur til að fanga sólalagið. Ég var reyndar aðeins of seinn til að ná sólinni að setjast en litirnir voru engu að síðar stórkostlegir.

Mynd af sólsetri í Gróttu.
Sólsetur í Gróttu. ©Tryggvi Már Gunnarsson
Mynd af sólsetri í Gróttu.
Sólsetur í Gróttu. Tekið með 10 stoppa Nisi filter og Medium Grad 3 stoppa til að ná himninum réttum. ©Tryggvi Már Gunnarsson

Það er líka gaman að mynda fjöruna á Hvaleyri við Hafnarfjörð og þangað fór ég um daginn þegar eldgosið var lokað. Birtan var mýkri og litirnir ekki eins djúpir, auk þess sem fjörugrjótið er grófara en í Gróttu.

Mynd af sólsetri við Hvaleyri.
Fjaran við Hvaleyri í Hafnarfirði. ©Tryggvi Már Gunnarsson
Með filterum er hægt að taka myndirnar á löngum tíma og fá mjúka áferð á sjóinn. ©Tryggvi Már Gunnarsson

Þetta vor er svo sannarlega áhugavert fyrir ljósmyndara. Sólsetrin eru falleg og eldgos í bakgarðinum.

Eldgos í Geldingadal

Eins og þúsundir annarra Íslendinga gekk ég upp að gosstöðvunum í Geldingadal í Fagradalsfjalli síðastliðinn sunnudag. Þetta var stórbrotið sjónarspil sem ég mun seint gleyma.

Hér er syrpa af myndum sem ég tók á svæðinu. Smelltu á myndirnar til að sjá þær stærri. Vinsamlegast ekki nota myndirnar annars staðar nema fá leyfi.

Ég skrifaði líka stuttan pistil á vef Fókus – félags áhugaljósmyndara um ferðalög að gosinu sem má nálgast hér: https://www.fokusfelag.is/2021/03/22/aetlar-thu-ad-mynda-gosid/. Ef þú hyggur á ferð að gosinu mæli ég með að þú rennir yfir hann.

Hér er síðan örstutt þögult myndband sem ég skaut á meðan ég var þarna. Mikið hlakka ég til að fara aftur.

Dagsferð um Reykjanes

Kleifarvatn, Seltún, Selatangar, Brimketill, Gunnuhver, Reykjanesviti og fleiri perlur eru frábærir áfangastaðir fyrir þá sem hafa gaman af landslagsljósmyndun. Sunnudaginn 24. janúar fóru nokkrir félagar í Fókus, félagi áhugaljósmyndara, í sóttvarða ferð um Reykjanesið. Fyrsta stopp var við klett sem stundum er kallaður Indjáninn og stendur rétt utan við ströndina.

Indjáninni í Kleifarvatni stendur af sé flest veður, frost og rok.

Þessu næst kíktum við á nýlega endurgerða Krísuvíkurkirkju. Þaðan fórum við niður að Krísuvíkurbjargi, sem er alltaf tilkomumikið.

Það var magnað að sjá sprungurnar á bjargbrúninni sem mynduðust í skjálftunum í haust.

Frá bjarginu ókum við sem leið lá út að Reykjanesvita.

Það er alltaf svolítil áskorun að finna sjónarhorn sem koma á óvart í jafn mikið mynduðu mótífi og Reykjanesvita.
Reykjanesviti blasir við undir gufunni frá Gunnuhver.

Eftir það stopp skildi leiðir og ég tók eitt aukastopp við Selatanga, þar sem brimið tókst á við Katlahraunið. Þó svo að klukkan væri bara rétt að slá 16.00 var sólin við það að setjast og úr varð þessi sóletursmynd.

Þetta var skemmtilegur dagur, fjölbreytt landslags, góð birtuskilyrði og gaman að sjá aðeins framan í félagana í Fókus, þó svo að við héldum alltaf 2 metra fjarlægð, ferðuðumst í eigin bílum o.s.frv.