Skundað um skjálftasvæði

Jarðskjálftinn í síðustu viku minnti okkur hérna á höfuðborgarsvæðinu á hvað við búum í mikilli nálægð við öflin í náttúrunni. Reykjanesið er eldbrunnið á alla kanta, endalaus hraun, öflug háhitasvæði og jarðmyndanir af ýmsum stærðum og gerðum.

Keilir hristist duglega í skjálftanum stóra

Í dag ákvað ég að gera mér ferð á svæði í nágrenni upptaka skjálftans, nánar tiltekið við Sog. Þar gekk ég um í tæplega þrjá tíma og naut eindæma náttúrufegurðar.

Horft yfir Sogalæk og landslag sem helst minnir á Landmannalaugar og Kerlingarfjöll.

Stormurinn sem hefur blásið um suðurhluta landsins dró fram dökk og dramatíska skýjabakka sem gerðu landslagið enn mikilfenglegra.

Rétt við gamla borholu á svæðinu er háhitasvæði og miðað við litinn á vatninu má ætla að þar hafi orðið talsverðar breytingar í skjálftanum. Alla jafna er vatnið í svona hverum gráleitt af uppleystu bergi, en í dag var stærsti pollurinn á svæðinu moldarbrúnn.

Það þykir mér benda til þess að hverinn sé að breyta sér og að mögulega sé hann að stækka og helga sér nýtt svæði.

Í nágrenni svona háhitasvæða má oft vænta áhugaverðra litasamsetninga og vatnið getur búið til fallegar abstrakt myndanir.

Reykjanesið er í miklu uppáhaldi hjá mér, hvort sem er til útvistar eða ljósmyndunar. Það er síbreytilegt, fjölbreytt og innan seilingar. Það er varla hægt að biðja um meira.

Bak við grímuna

Það örlar á faraldursþreytu í manni og þá er mikilvægt að átta sig á því hvað maður getur gert til þess að létta lundina, hvað er hægt innan sóttvarnatakmarkana og svo framvegis.

Ætli andlitsgrímur verði ekki eitt af því sem stendur upp úr hjá okkur þegar þessum faraldri lýkur. Eins konar einkennisfatnaður Covid-19.

Þessar myndir minna okkur á veruleikann þetta árið. Forðast mannamót, halda sig sem mest heima, þvo og spritta hendur o.s.frv.

En til þess að minna okkur nú á að þetta er tímabundið ástand og að lífið mun á endanum komast í skorður sem við þekkjum betur ákváðum við að minna okkar á það með þessari seríu:

Haustlitir og háhitasvæði

Þetta hefur verið skrítið ár og því miður hefur það bitnað svolítið á ljósmynduninni hjá mér. Það hefur verið minna að gera í portrettmyndatökum, fermingarmyndatökum og brúðkaupum en undanfarin ár og ég hef ekkert gædað erlenda ljósmyndara á þessu ári.

Þegar svona ládeyða skellur á þarf stundum að sparka í rassinn á sjálfum sér og kveikja viljandi aftur á drifkraftinum. Á mánudaginn ákvað ég að fara í mína eigin ljósmyndaferð.

Ég var mættur á Ölkelduháls fyrir sólarupprás. Vegurinn þangað var ekki góður, en með því að fara hægt og rólega var þetta lítið mál fyrir Súkkuna.

Það eru víða fallegar stikaðar gönguleiðir á þessu svæði sem leiða mann að mjög virkum hverasvæðum. Það er þó mikilvægt að fara varlega og horfa vel niður fyrir sig því ný hveraaugu geta opnast hér og þar.

Svona háhitasvæði eru endalaus uppspretta fyrir abstrakt myndatökur og lítið mál að gleyma sér algerlega í formum, litum og leitinni að hinni fullkomnu myndbyggingu.

Síðan lá leiðin í Þjórsárdalinn. Á upphaflegu áætluninni var að kíkja á Rauðuskál við Heklu en þykk þoka lá yfir svæðinu og ég heimsótti Þjófafoss í staðinn.

Þokan sló miklum ævintýraljóma á svæðið og þegar hún byrjaði að þynnast og sólin að brjótast í gegn var eins og sölnað melgresið tæki að ljóma.

Hægt og rólega slitnaði þokan í sundur og Þjófafoss með Búrfell í bakgrunni fór að birtast.

Eftir því sem leið á dvölina á þessu stórbrotna svæði sá ég að vatnið í ánni varð sífellt brúnleitara og blái liturinn í hylnum fyrir neðan fossinn var byrjaður að breytast. Það var greinilega verið að bæta í rennslið á ánni úr einhverjum þeirra miðlunarlóna sem liggja ofar í dalnum.

Veitið athygli litamuninum á ánni og hylnum.

Aðeins neðar meðfram ánni hefur talsverður gróður náð að skjóta rótum í klettabeltinu og urðinni undir því og birtuskilyrðin drógu fram sterka haustliti.

Leiðin lá næst í Gjána í Þjórsárdal sem skartaði fjölbreyttum litum, fallegri birtu og endalausum mótívum.

Þetta var frábær dagur og góð innspýting í þessu leiðindakófi sem heimsfaraldurinn ætlar að þyrla upp. Góð áminning um að fegurðin er víða og að þrátt fyrir erfiðleika og streð er mikilvægt að gefa sér tíma til að fara um, horfa og njóta þess sem náttúran býður upp á.

Landslagsljósmyndun getur verið hin besta hugleiðsla.

Myndband og plötucover

Í vikunni var frumsýnt tónlistarmyndband eftir mig og vini mína í hljómsveitinni Tvö dónaleg haust við lagið Ég er til sem er á plötu sem kemur út núna í loka mánaðar:

Myndbandið var annars vegar skotið í stúdíóinu þar sem eitt ljós með stóru octoboxi og griddi lýsti upp þessa stórkostlegu miðaldra karlmannskroppa. Hins vegar skutumst við upp í sveit þar sem ég elti þá á röndum á meðan þeir léku sér.

Annar þáttur í undirbúningi útgáfunnar var að skjóta plötucover. Hugmyndavinnan fólst kannski helst í því að skilgreina hvað einkennir daglegt líf miðaldra fólksins. Primaloftúlpur, tjaldvagnar, spandex hjólagallar og síðdegislúrar voru nefndir sem samnefnarar í lífi marga, en niðurstaðan varð Bónus. Að ákveða hvað á að vera í matinn, kaupa í matinn og horfa á tímann þjóta hjá. En kaupa samt alltaf það sama. Ætli það sé ekki reynsluheimur sem margt miðaldra fólk tengi við.

Þrátt fyrir að myndin hér að ofan hafi orðið fyrir valinu var þessi myndataka hin skemmtilegasta og hefðu nokkrar aðrar hæglega getað sómt sér vel sem covermyndir: