Austurengjahver

Austurengjahver er stórt og mikið hverasvæði milli Grænavatns og Kleifarvatns. Það er tiltölulega auðvelt að ganga að svæðinu og stikuð gönguleið er frá bílastæðinu við Grænavatn. Þetta er frekar stutt ganga, u.þ.b. 2 km hvora leið, en svæðið er býsna kraftmikið, stórar tjarnir með sjóðandi heitu vatni, gufuaugu og fallegir litir víða þar sem leirblandað vatnið rennur úr tjörnunum.

Ég rölti inn að hvernum í dag. Veðrið var áhugavert, gekk á með nokkuð þéttum og dimmum éljum en stytti upp inn á milli.

Það er eitthvað svo heillandi að sjá andstæðurnar í snjónum og þessu heita vanti sem þarna streymir upp úr jörðinni.

Það er ekki nokkur spurning að ég mun gera mér ferð aftur að þessu svæði seinna í vetur þegar kominn er meiri snjór.

Á leiðinni til baka blasti þetta við mér, sólin að reyna að glenna sig í gegnum þykka og dimma skýjahulua.

Myndir ársins 2020

Ég ákvað að líta aðeins yfir árið 2020 og velja nokkrar af minnistæðustu myndum ársins. Það þarf ekkert að fjölyrða um það hversu furðulegt árið var en í heildina get ég verið mjög sáttur við það hvernig ljósmyndunin mín þróaðist á árinu.

Ég fór í frábæra gönguskíðaferð um Hellisheiði einn sólríkan seinnipart í mars. Snævi þakin fjöllin og sólin lágt á lofti gerðu mér kleift að ná þessari.
Í vor fór ég með félögum í Fókus í skemmtilegt rölt á bökkum Vífilsstaðavatn þar sem mátti fylgjast með flórgoða á hreiðri.
Í matarboði í sumarbústað hjá vini mínum í júní bar það helst til tíðinda að þessi álftarungi virtist vera búinn að koma sér í tóm vandræði. Honum var snarlega bjargað í bjartri vornóttinni.
Í júlí var gengið frá Sveinstindi um Skælinga í Hólaskjól. Mosi vaxnir hólar og hæðir við Sveinstind glöddu augað og mína gömlu Canon S100 sem er gjarnan ferðafélagi minn þegar gengið er í marga daga með allt á bakinu.
Þegar komið er út úr Eldgjá og gengið niður með Ófæru eru víða stórbrotin og falleg mótíf í náttúrinni.
Í lok júlí var heimsóttum við Norðurland og stöldruðum m.a. annars við hjá Goðafossi. Sólin skein bjart á fossinn og ekki hægt að ná fallegum myndum af honum í þeim skilyrðum. En í skugganum lúrði þetta stórbrotna stuðlaberg og greip augað.
Í september var komið að því að klára plötu sem hljómsveitin Tvö dónaleg haust er búin að vera með í smíðum í nokkur ár. Auk þess að spila á gítar á plötunni tók ég covermyndina. Platan heitir Miðaldra og einhvern veginn fannst okkur fátt túlka það tímabil í lífinu betur en að bugast fyrir utan Bónus og reyna að ákveða hvað á að vera í matinn.
Eftir að hafa unnið innilokaður heima í nokkrar vikur í október varð ljósmynda- og ferðaþráin svo sterk að ég ákvað að gera mér ferð um suðurlandið í heilan dag. Við Þjófafoss var þykkri þoku að létta þegar ég kom þar að og birtuskilyrðin frábær. Það var hreinlega eins og melgresið væri sjálflýsandi í svörtum sandinum.
Þjófafoss og Búrfell voru falleg í haustlitunum.
Meira af haustlitum við Búrfell.
Það var einhvern veginn alveg viðeigandi að skoða haustlitina í Gjánni í Þjórsárdal líka og þeir ollu engum vonbrigðum.
Í október tók ég þátt í ljósmyndakeppni á vegum Fókus og sendi inn þessa næturmynd sem ég kalla Haust í heimsfaraldri.
Í október uppfærði ég aðeins búnaðinn í stúdíóinu og fékk krakkana mína til að kíkja sitja aðeins fyrir. Ætli þetta verði ekki ár grímunnar og vel við hæfi að eiga nokkur portrett af fólki með grímur.
En það er líka alveg nauðsynlegt eftir svona ár að minna sig á að einhvern tíman verður lífið aftur eðlilegra og þá verður sko fjör.
Beggi bróðir minn kom líka í heimsókn í stúdíóið til mín og við unnum aðeins með dökka stemmingu og boxþema.
Meira af boxi og Begga.
Þessi er úr útskriftarmyndatöku dóttur minnar sem fór fram núna í desember.

Ég óska öllum þeim sem lesa þetta gæfu og heilbrigðis á nýju ári. 2020 var að mörgu leyti ágætt en ég vona svo sannarlega að 2021 verði að einhverju leyti án samkomutakmarkana og að við getum fellt grímurnar fljótlega á nýju ári.

Box bomba!

Beggi Dan, bróðir minn, kíkti í stúdíóið til mín í kvöld. Við ákváðum að búa til dökka stemmingu og vinna aðeins með boxið sem hann æfir af kappi þessar vikurnar. Ætli það sé ekki best að myndirnar tali sínu máli:

Þetta var virkilega skemmtileg kvöldstund og Beggi stóð sig frábærlega sem módel.

Grænmetisborgari frá grunni

Fyrir nokkru fékk ég þá skemmtilegu áskorun að skila inn nokkrum uppskriftum í Vikublaðið sem gefið er út á Akureyri.

Ég ákvað að hafa þríréttaða veislumáltíð sem allir á heimilinu gætu notið, hvort sem þeir borða kjöt eða ekki.

Ekki síðra var að mynda herlegheitin, sem ég gerði með einföldu hringljósi, beint fyrir ofan matinn og makró linsu.

Forrétturinn var mjög einfaldur pinni með smá mozarella osti, ólífu og mexíkó ostarúllu. Með því að fá sér melónubita strax á eftir var eins og búið væri að kveikja á öllum bragðlaukunum.

Í aðalrétt var svo svartbaunaborgari, lauslega byggður á ýmsum svartbaunabuffsuppskriftum sem ég hef gert, borinn fram með steiktum sveppum, karamelluðum rauðlauk og geggjaðri avókadósu sem ég sá á gulur, rauður, grænn og salt.

 • 2 dósir svartbaunir
 • 1 laukur
 • 1 gulrót
 • 1 rauð paprika
 • 2 geirar af hvítlauk
 • salt og pipar
 • 1 tengingur af grænmetiskrafit
 • 1 tsk cummin
 • smjör til steikingar
 • haframjöl til þykkingar

Skolið baunirnar og látið standa smá stund í sigti til þess að þurrka aðeins. Setjið þær síðan í skál og stappið. Skerið grænmetið allt smátt og steikið, t.d. í litlum potti. Þegar safinn fer að koma af grænmetinu er gott að bæta við einum teningi af grænmetiskrafti, bæta við cummin kryddinu og salta eftir smekk. Látið malla í ca. 5 mínútur. Því næst er grænmetið maukað með töfrasprota eða sett í matvinnsluvél. Maukinu er síðan blandað saman við baunastöppuna og hrært vel saman. Bætið við haframjöli til þess að þykkja blönduna svo hægt sé að móta borgarana. Látið svo kólna aðeins. Ég móta borgarana með hamborgarapressu, en hægt er að gera það líka með höndunum. Steikið síðan í ca 5-7 mínútur á hlið. Byrjið frekar með aðeins lægri hita og hækkið, frekar en að byrja á of miklum hita. Ef maukið er ennþá heldur blautt má setja brauðrasp á borgarana rétt áður en þeir fara á pönnuna.

Avókadósan er mjög einföld, en ákaflega bragðgóð

 • 2 avókadó
 • 1 dós af sýrðum rjóma
 • Sweet chili sósa eftir smekk

Takið hýðið af avókadóinu, takið steininn úr og stappið. Hrærið sýrða rjómanum saman við og bragbætið svo með sweet chili sósunni.

Í eftirrétt var svo einföld súkkulaðimús með kaffi- og vískibragði. Trikkið þar er bara að finna einfalda uppskrift að súkkulaðimús og setja 1-2 msk af mjög sterku kaffi og 1 tsk af viskí út í súkkulaðiblönduna.